Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. apríl 2020

Ályktun frá Landssambandi veiðifélaga

Þann 1. febrúar síðastliðinn var tilkynnt um gat á nótarpoka sjókvíar í Dýrafirði sem innihélt 170.000 stykki af 5 punda norskum eldislöxum. Gatið var 1 metri að stærð og var á 20 metra dýpi.

 

Þann 20. mars var tilkynnt um þrjú göt á nótarpoka sjókvíar í Ísafjarðardjúpi sem í voru 26.000 regnbogasilungar. Áður hafði verið athugað með ástand nótarpokans þann 19. október eða 5 mánuðum áður. Það er lögbrot enda á að skoða pokana með neðansjávareftirliti á 90 daga fresti. Þetta er alvarlegt mál og hlýtur að verða skoðað af stjórnvöldum. Götin voru 20 x 30 cm á tveggja metra dýpi.

 

Þann 2. apríl var svo tilkynnt um enn eitt slysið. Þrjú göt voru á nótarpoka sjókvíar sem inniheldur frjóan norskan eldislax. Umrædd kví er í Arnarfirði og innihélt tæplega 90 þúsund norska eldislaxa sem eru 8 kg að meðalþyngd. Götin voru allt að 1 metri að stærð á 1,5 metra dýpi. Lax af þessari stærð getur orðið náttúrunni afar skeinuhættur ef hann sleppur á þessum tíma. Það er stutt í göngutíma laxa, eldisfiskurinn stór og öflugur og búast má við að hluti hans sé kynþroska.

 

 

 

Bara á þessu ári hafa orðið þrjú atvik af þessu tagi sem tilkynnt hefur verið um. Rekstraraðilar þessara sjókvía telja auðvitað að enginn fiskur hafi sloppið en það væri með miklum ólíkindum ef það hefur ekki gerst.

 

Fyrstu tvo mánuði þessa árs drápust um 800 tonn af norskum eldislaxi í sjókvíum í Arnarfirði samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Ekki liggur fyrir hversu mikið sú tala hækkaði í mars en fyrir tveimur árum drápust um 1.500 tonn í sjókvíum fyrir vestan fyrri hluta ársins, samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðilanum sjálfum, en það þýðir að um 300 þúsund eldislaxar hafa drepist. Vegna þrengsla í kvíunum var veruleg hætta á að mikið magn laxa slyppi. Það er þekkt að sjókvíar hreinlega sökkvi eða netin rifni þegar svona mikill dauði verður. Á sama tíma sluppu yfir 200.000 laxar í Færeyju við svipaðar aðstæður. Í Arnarfirði mátti ekki miklu muna að stórslys yrði.

 

Þegar litið er til allra þessara atvika og annarra sem hafa átt sér stað á undanförnum árum er sorglegt að nýtt áhættumat fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta laxastofna hafi verið knúið fram af sjávarútvegsráðherra og Alþingi. Áhættumat sem byggt er á ónógri reynslu af rekstri þessara fyrirtækja og afleiðingum fyrir náttúruna. Það er líka dapurlegt að nú eigi að opna fyrir eldi á frjóum norskum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi með þeirri ógn sem það hefur fyrir árnar þar og aðrar ár, t.d. í Húnavatnssýslunum þar sem margar af helstu laxveiðiám landsins eru.

 

Slysin munu halda áfram að eiga sér stað þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Það er vitað að þessar sjókvíar halda ekki fiski. Ef fyrirætlanir stjórnvalda um að stórauka laxeldi hér á landi og hleypa því inn í Ísafjarðardjúp mun það hafa hörmulegar afleiðingar í för með sér.

 

Hér er hægt að sækja ályktun í pdf-skjali