Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
31. janúar 2020

Jens Garðar og Keiko

Þegar kemur að vernd villtra laxastofna frammi fyrir skaðsemi sjókvíaeldis á norskum laxi við Ísland vill Jens Garðar Helgason, stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS ) og framkvæmdastjóri sjókvíaeldisfyrirtækisins Laxa, horfa til afdrifa háhyrningsins Keiko. Þetta kom fram í furðulegri grein framkvæmdastjórans í Fréttablaðinu á dögunum. Þeim sem þykir vænt um villta íslenska lax- og silungsstofna finnst hins vegar mun gáfulegra að skoða varnaðarorð norska vísindaráðsins um laxinn, en það er skipað þrettán vísindamönnum frá sjö mismunandi háskólum og stofnunum í Noregi. Niðurstöður nýjustu ársskýrslu vísindaráðsins eru afgerandi: „Stærsta manngerða ógn við villtra laxastofna í Noregi eru sleppifiskar úr laxeldi, ásamt laxalús og sjúkdómum sem má rekja til sjókvíaeldis.“ 

 

Eldislax © Sumarliði Óskarsson

 

Heimatökin ættu að vera hæg fyrir Jens Garðar að fá þessa skýrslu frá norskum vinnuveitendum sínum, sem eru meirihlutaeigendur að Löxum fiskeldi, en hún er reyndar líka aðgengileg á vefnum. Og ef Jens Garðar trúir ekki varnaðarorðum norska vísindafólksins, má benda honum á „Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2019-2023“ sem er rit erfðanefndar landbúnaðarins. Þar er meðal annars fróðlegur kafli um ferskvatnsfiska þar sem eftirfarandi orð er að finna:
„Laxeldi í sjókvíum er álitið ógn við villta stofna laxa og laxfiska. Helstu áhrifin eru talin vera vegna mögnunar og útbreiðslu sjúkdóma og laxalúsar og erfðablöndunar við villta stofna. Á Íslandi er notaður eldisstofn af framandi uppruna (norskur) í sjókvíaeldi. Vegna þeirrar áhættu sem því fylgir hefur erfðanefnd landbúnaðarins lagst gegn notkun hans.


Í Noregi má aðeins ala eldislax af innlendum uppruna í sjókvíum en þó eru strokulaxar úr eldi taldir helsta ógn við villta stofna þar í landi, einkum vegna erfðablöndunar. Erfðablöndun hefur mælst í flestum laxastofnum í Noregi sem rannsakaðir hafa verið. Erfðablöndun getur brotið upp náttúrulega aðlögun, breytt erfðasamsetningu (gert þá líkari eldislöxum) og valdið erfðafræðilegri einsleitni laxastofna. Áhrifin geta komið fram í hnignun stofna, breyttri lífssögu, minni getu til að bregðast við loftslagsbreytingum og minni líffræðilegri fjölbreytni.“

 

Það er ekki traustvekjandi að helsti talsmaður sjávarútvegs á Íslandi kjósi að loka augunum fyrir svo sterkum varnaðarorðum íslenskra og erlendra vísindamanna. Ef viðkomandi er hins vegar í vinnu við hagsmunagæslu fyrir norska sjókvíaeldisrisa, þá eru því miður aðrir hagsmunir í húfi fyrir þá en vernd íslenskrar náttúru og lífríkis.

 

Þessa grein eftir Jón Kaldal er að finna undir liðnum Skoðun í Fréttablaðinu.