Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
11. janúar 2020

„Menn að sleppa axlaböndunum en halda beltinu“

Í nýrri reglugerð um fiskeldi sem sjávarútvegsráðherra hefur birt til umsagnar er lagt til að bann við sjókvíeldi á eldislaxi í minna en fimm kílómetra fjarlægð frá laxveiðiám, þar sem veiðast hundrað laxar að meðaltali, verði afnumið. Stundin greindi frá þessu fyrst í vikunni. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segir lögin hafa litlar breytingar í för með sér.
 

„Ástæðan fyrir þessu er sú að það var mat ráðuneytusins að þetta einstaka tæki sem var lögfest í vor um áhættumat erfðablöndunar - sem er einstakt í veröldinni því við erum fyrsta landið til að lögfesta slíkt tæki - að með áhættumatinu væri verið að setja strangari skilyrði en reglan um fjarlægðarmörkin segði til um,“ segir Kristján Þór.

 

Hann segir ótal þætti vera vigtaða inn í áhættumatið með það að markmiði að laxastofnar njóti þeirrar verndar sem löggjafinn ætlast til. „Það er ekki í mínum hug að gefa nokkurn einasta afslátt varðandi kröfur um vörn fyrir villta laxastofna á Íslandi,“ segir Kristján.

 

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, segir ekki verið að rýmka fyrir reglum um fiskeldi. „Nei, það er kominn annar þáttur þarna inn. Að hafa báðar reglurnar inni væri eins og að vera með belti og axlabönd. Þarna væru menn að sleppa axlaböndunum en halda beltinu,“ segir Ragnar.

 

Hann segir ólíklegt að reglugerðin opni á aukið laxeldi á Austfjörðum eða í Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir að áhættumatið snúist fyrst og fremst um erfðablöndun hafi það einnig áhrif á aðrar hættur sem stafa af fiskeldi.

 

„Það er ekki gott að hafa eldið nálægt minni laxveiðiá út af þáttum eins og lús og slíkt. Svoleiðis hluti þarf maður líka að hafa í huga en þetta ætti svo sem að taka á því líka. Áhættan á erfðablöndun myndi færa það utar,“ segir Ragnar.

 

 Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is