Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. nóvember 2019

Ályktun stjórnar Lv um IPN veirusýkingu í eldislaxi

Stjórn Landssambands veiðifélaga harmar að IPN veirusýking hafi komið upp í norskum eldislaxi í eldiskvíum Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Slík veirusýking hefur aldrei greinst í laxi á Íslandi enda er villti laxastofninn við Ísland með þeim heilbrigðustu í heimi. IPN veira veldur alvarlegum sýkingum í laxfiskum.
 
Ljóst er að alltaf sleppur einhver fiskur úr opnum sjókvíum auk þess sem villtir laxfiskar eru alltaf í nágrenni eldisins í einhverjum mæli. Mikil hætta er þá á því að veiran berist í villta laxa- og silungastofna. Það voru stjórn Landssambands veiðifélaga mikil vonbrigði að sjá viðbrögð Matvælastofnunar sem gerir lítið úr þessari sýkingu í tilkynningu sinni.

 

Landssambandið minnir á að það hefur ítrekað mótmælt notkun á innfluttum brunnbátum sem notaðir hafa verið við seiðaflutninga í sjókvíar hér við land. Landssamband veiðifélaga hefur oft bent á að slíkir bátar hafi dreift smiti í norsku fiskeldi. Í ljósi þess er það óskiljanlegt að innflutningur á þessum tækjum hafi verið heimilaður af Matvælastofnun.
 
Landssamband veiðifélaga krefst þess að rannsakað verði hvaðan umrædd sýking barst og að öllum innflutningi á notuðum búnaði verði umsvifalaust hætt.
 
Stjórn Landssambandsins krefst þess að umræddum laxi verði þegar í stað fargað og eytt í viðurkenndri eyðingarstöð. Verði það ekki niðurstaða Matvælastofnunar skorar LV á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hlutast til um málið þannig að heilbrigði villtra laxastofna við Ísland verði varið og tryggt.
 
Hér er hægt að sækja fréttatilkynningu sem pdf-skjal.