Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
29. október 2019

Villtur lax ekki nógu öflugur til að þola fisk­eldi, þurrka og öfgar í veður­fari

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segist eiga von á talsverðum bata í laxveiðinni á næsta ári. Stærsti óvissuþátturinn sé afdrif seiðanna eftir að sjórinn tekur við þeim.

 

Jón segir veiðimenn þreytta eftir árið, bæði vegna niðursveiflunnar í veiði og mikilla þurrka sem geri veiðiaðstöður verri. Hann segir hugsanlega ástæðu vera hækkandi hitastig í sjó og öfgar í veðurfari sem skapi almennt hættu fyrir lífríkið. 

Jón fundaði með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra og fulltrúa Hafrannsóknastofnunar um stöðu villtra laxastofna í síðustu viku. Stjórnarráðið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að aðstæður fyrir uppgöngu laxa og veiði séu með versta móti. Á fundinum var farið yfir stöðuna almennt.

Afkoma laxa í sjó skiptir miklu máli varðandi endurheimtur og vísbendingar eru um að endurheimtur hafi verið með lægsta móti árið 2019 og almennt farið minnkandi við Atlantshafið, bæði í Noregi og við strendur Skotlands.

 

Veiða og sleppa

Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar og Landssambands veiðifélaga voru samstíga um að fylgjast verði grannt með þróuninni. En hvað er hægt að gera til að vernda villtan laxastofn?

„Öflugasta leiðin er að veiða og sleppa. Veiðimenn hafa gert það og hefur verið gott samstarf milli landeigenda og veiðimanna að hlífa stofninum og drepa minna,“ segir Jón Helgi í samtali við Fréttablaðið. Hann segir flesta veiðimenn taka vel í þá hugmynd.

 

„Menn voru að furða sig á þessu í upphafi en smám saman hefur þetta orðið eðlilegur hluti af veiði. Menn taka kannski einn og einn fisk en sleppa restinni. Að veiða og sleppa er komið til að vera.“

 

Hann segir gaman að sjá þær breytingar sem eigi sér stað í Blöndu. Veiðifélagið Lax-á hefur verið með Blöndu á leigu um árabil en ánni er skipt í fjögur svæði og er samtals veitt á 14 stangir. Á einu svæði má einungis veiða á flugu og er maðkveiði bönnuð.

 

Aukið álag vegna fiskeldis

Jón Helgi segir laxeldisfyrirtæki taka óþolandi mikla áhættu með eldi á frjóum laxi.

„Við þurfum að glíma við mikla þurrka og öfga í veðurfari og fiskeldi er álag sem bætist svo ofan á. Við höfum þungar áhyggjur af því að stofnarnir séu ekki nógu öflugir til að þola þetta,“ segir Jón Helgi. Hann segir íslenska stofna veika fyrir og að sleppislys geti skapað mikla hættu.

„Maður hefur miklar áhyggjur vegna smæðar villtra stofna. Eina leiðin til þess að friður náist um fiskeldi, verða menn að ala ófrjóa fiska eða nota lokuð kerfi.“

 

Fiskeldi Austfjarða fékk leyfi fyrr á árinu til að ala ófrjóan lax í Fáskrúðsfirði og Berufirði og var það í fyrsta sinn sem slík leyfi voru gefin úr hérlendis. Leyfin eru gefin út í samræmi við áhættumat Hafrannsóknastofnunar þar sem metin var áhættan af blöndun eldislax við villtan lax. Með eldi á ófrjóum fiski sé að hluta til brugðist við þeirri gagnrýni.

 

Þessa frétt er að finna á vef Fréttablaðsins.