Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
3. október 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 2. október. Um mánaðarmótin lauk veiði í síðustu vatnakerfum okkar sem hófu veiði í sumarbyrjun, s.s. þær ár sem við flokkum sem náttúrulegar ár en veiðar í þeim ám sem byggja á seiðasleppingum verða stundaðar vel fram í október. Það er því enn hægt er að stunda laxveiðar áfram í nokkrum ám þetta veiðitímabilið.

 

Á veiðitölulista okkar eru um 50 mismunandi vatnakerfi og meirihluti skilar inn vikulegum veiðitölum yfir veiðitímabilið. Nú hafa borist lokatölur úr 31 ám/veiðisvæðum og má gera ráð fyrir að lokatölur berist úr flestum þeirra á næstu dögum. Á listanum eru fjögur vatnakerfi þar sem laxveiði er enn stunduð en þau eru; Ytri-Rangá, Eystri-Rangá, Affall í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð.

 

Endanleg röð á listanum okkar verður ljós þegar allar ár sem luku veiði um mánaðarmótin hafa skilað inn og þær fjórar sem enn er veitt í munu loka og skila inn lokatölum.

 

Efst er Eystri-Rangá með samtals 2978 laxa og skilaði veiðivikan 79 löxum. Það er því líklegt að Eystri-Rangá muni fara vel yfir 3000 laxa markið í lok veiðitímabils. Í öðru sæti er Ytri-Rangá með samtals 1626 laxa en veiðivikan skilaði 34 löxum. Affall í Landeyjum er komið í 314 laxa og skilaði síðasta vika 24 löxum. Þverá í Fljótshlíð er komin í 142 laxa og veiddust 2 laxar síðustu veiðiviku.

 

Næstu veiðitölur verða teknar saman í lok veiði miðvikudagsins 9. október.

 

Hafa ber í huga að veiðitölur eru framsettar með þeim fyrirvara að eftir á að lesa veiðibækur yfir og staðfesta lokatölu.

  

Það er vel þegið að fá lokatölur úr ám sem ekki hafa verið í vikulegri samantekt. Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling.is eða hringja/senda sms í síma 852-3398

 

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur. Kærar þakkir fyrir ykkar liðsinni í veiðitölusöfnun.