Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
26. september 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok miðvikudags 25. september. Nú loka árnar okkar ein af annari og í kjölfarið berast lokatölur en þær hafa borist úr tæplega tuttugu vatnakerfum. Veiði verður lokið í flestum ám mánudaginn 30. september næstkomandi en það má geta þess að veiðar í þeim ám sem byggja á seiðiasleppingum verða stundaðar vel fram í október. Það verður því áfram hægt að stunda laxveiði í nokkrum ám þetta veiðitímabilið.

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast. Það getur verið erfitt að ná tölum í hús þegar vel er liðið á veiðitímabilið en allt hefst þetta að lokum. Það má geta þess að í einhverjum tilvikum munu tölur breytast þar sem samantekt og yfirlestur veiðibóka er enn í gangi.  

Sem fyrr er Eystri-Rangá í efsta sæti en þar er veiðin komin í 2899 laxa. Í fyrra veiddust 160 laxar á tímabilinu 26. september til 20. október og ef aðstæður til veiða verða hagstæðar þá gæti hún farið yfir 3000 laxa markið.

 

Í öðru sæti er Miðfjarðará sem lokaði í gær miðvikudag með samtals 1606 laxa en líklega mun sú tala breytast aðeins í kjölfar þess að veiðibækur verða yfirfarnar.

 

Í þriðja sæti er Ytri-Rangá með 1592 laxa. Veiði verður áfram stunduð vel fram í október og ljóst að það styttist í að hún færist upp í annað sætið og haldi því.

 

Í fjórða sæti er Selá í Vopnafirði en þar lauk veiði 19. september og veiddust samtals 1484 laxar sem er 144 löxum meiri veiði en í fyrra en þá veiddust samtals 1340 laxar. Þetta er yfir meðalveiði síðastliðin áratug og jákvæð þróun sem lofar góðu.

 

Í fimmta sæti er Þverá/Kjarará með 1132 laxa en sú tala er viku gömul þar ekki hafa borist nýjar veiðitölur. Uppfært verður þegar nýjar veiðitölur berast.

 

Í sjötta sæti er Laxá á Ásum sem lokaði 20. september með samtals 807 laxa sem er 105 löxum meira en í fyrra en þá veiddust samtals 702 laxar.

 

Í sjöunda sæti er Urriðafoss í Þjórsá en þar lauk veiði 18. september með samtals 747 laxa sem er 573 löxum minna en í fyrra en þá veiddust samtals 1320 laxar. Veiðin er nánast sú sama og árið 2017 en þá veiddust 755 laxar og munar því aðeins um 8 laxa.

 

Í áttunda sæti er Hofsá og Sunnudalsá en þar lauk veiði 23. september og veiddust samtals 711 laxar sem er 14 löxum meiri veiði en í fyrra en þá veiddust samtals 697 laxar. Þetta er jákvæð þróun sem lofar góðu.

 

Í níunda sæti er Laxá í Dölum með samtals 695 laxa en lokadagur veiði er 30. september.

 

Í tíunda sæti er Grímsá og Tunguá með samtals 687 laxa og veitt verður fram að mánaðarmótum.

 

Hér er hægt að skoða lengri lista með veiðitölum úr tæplega 50 vatnakerfum. Sjá nánar hér

 

Þess má geta að veiðibækur fara til ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar þar sem þær eru vandlega yfirfarnar, unnið úr upplýsingum og þær skráðar. Endanlegar veiðitölur eru síðan gefnar út í árlegri skýrslu.


Þetta er nefnt sökum þess að af fenginni reynslu þá hafa yfirfarnar veiðitölur verið í sumum tilvikum aðeins lægri en samantekt okkar hér á vefnum. Ekki munar þar miklu en best er að treysta endanlegum tölum frá ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar enda búið að fara vel og vandlega í gegnum þær. En þangað til að þær upplýsingar berast þá getum við notast við þá söfnun veiðitalna sem hér er og þær upplýsingar ættu ekki að breytast mikið.

Söfnun veiðitalna væri ekki möguleg nema fyrir liðsinni fjölda aðila sem vikulega taka saman veiðitölur og má þar nefna veiðiverði, veiðileiðsögumenn, matreiðslumenn, starfsfólk veiðihúsa, leigutaka, veiðiréttarhafa, árnefndarfólk og fleiri. Eiga allir þessir aðilar þakkir skildar fyrir.