Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
22. ágúst 2019

Gat nú verið

Umfjöllun um úrkomuleysi, bágan vatnsbúskap, litlar heimtur á laxi, erfiðar aðstæður til veiða og fleira í þeim dúr hefur fengið sinn skerf í vikulegri samantekt okkar og ríflega það, í stuttu máli þá eru aðstæður víða erfiðar og það sést vel í veiðitölum þetta veiðitímabilið. 

 

En það er fleira sem getur haft neikvæð áhrif í för með sér og ógnað framtíð laxastofna umhverfis landið og þá er verið að vísa í að enn og aftur hefur komið gat á eldiskví á vestfjörðum sem hýsir gríðarlegt magn ef frjóum eldislaxi af norskum uppruna. Í þessari einu eldiskví, sem gat kom á, er áætlað að séu 179.000 laxar. Til að setja þetta í samhengi þá má geta þess að alls hafa veiðst innan við 16.000 laxar úr þeim tæplega 50 vatnakerfum sem við söfnum veiðitölum úr þetta veiðitímabilið.

 

Hve mikið slapp úr eldiskví er óvíst en ljóst að ef eldislax hefur sloppið út þá myndi hann líklega ekki ganga upp í ár til hrygningar þetta árið. Hinsvegar ef eldislax hefur sloppið, lifir sjávardvöl af fram að kynþroska þá mun hann ganga upp í ár til að hrygna þegar þar að kemur og þá hugsanlega næsta sumar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að erfitt getur verið að greina kynþroska eldislax af útliti ef hann hefur sloppið úr eldi sem gönguseiði eða sem smár lax þar sem minna ber á útlitseinkennum eins og uggasliti og fl. 

 

Áhugavert væri að vita hve mikið af norskum eldislaxi í eldiskvíum hér við land er örmerktur. Örmerki er málmsívalningur, um 1.1 mm að lengd og 0.25 mm í þvermál úr segulmögnuðu ryðríu stáli, sem á hefur verið skrifað númer. Því komið fyrir í fituvef seiða með sérstökum búnaði  en örmerktur lax er auðkenndur með því að klippa af honum veiðiuggann. Það myndi liðsinna mikið við að greina eldilaxa frá villtum ef þeir væru auðkenndir með þessum hætti og einnig væri ljóst hvaðan eldislaxinn slapp. Erfitt getur verið að rekja nákvæmlega uppruna eldislax útfrá erfðagreiningu og slíkt er jafnframt kostnaðarsamt en með örmerki er hægt að rekja uppruna með mun nákvæmari hætti og þá ekki einungis til viðkomandi eldisstöðvar heldur jafnvel til hvaða seiðahóps og úr hvaða eldiskví fiskurinn slapp.

 

Í upphafi var það skýrt að eldislax af norskum uppruna yrði ekki heimilaður í eldiskvíum en einshverja hluta vegna hafa mál þróast með þeim hætti að slíkt var gert þvert á það sem var forsenda fyrir innflutningi þess norska á sínum tíma. Nú virðist sem það sé mikið kappsmál að auka framleiðsluna eins mikið og fræðilega er unnt á þeim svæðum sem eldið er nú þegar til staðar og við bætast tilraunir til að fá leyfi á nýjum svæðum.

 

Í ljósi þess að gríðarlegt magn af frjóum norskum eldilax er í eldiskvíum hér við land og ekki spurning hvort eigi sér stað svo kölluð slysaslepping, heldur hvenær það gerist og hve mikið mun sleppa þá er ætti að örmerkja allann eldislax, í það minnsta stórt hlutfall af hverjum seiðahóp og að hann ætti að vera ófrjór. Þegar hafa verið gefin út leyfi hérlendis, sbr, Fiskeldi Austfjarða þar sem forsenda leyfisveitingar var að notast yrði við ófrjóan eldislax og er það breyting til batnaðar.

 

Staðreynd málsins er sú að þegar hafa átt sér stað slysasleppingar og slíkt mun óhjákvæmlega eiga sér stað aftur og aftur. Það ætti að vera víti til varnaðar að skoða sögu laxeldis í kvíum hér við land, ekki er hún gæfuleg. Þó að vissulega sé eldisbúnaður orðin mun betri en var hér í notkun á árum áður þá er þetta engu að síður búnaður sem getur brugðist og þarf stundum ekki mikið til eins og dæmin sanna. Hvað þá þegar meiriháttar aðstæður koma upp eins og válynd veður geta valdið og ekki verður við neitt ráðið. Það væri nær að horfa aftur til strandeldisstöðva þar sem hægt er að hafa mun betri stjórn á hlutunum. Þar er hægt að stýra hitastigi, seltu, birtu, sýrustigi, straumhraða, súrefnismagni, fóðurgjöf, flokkun, meðhöndlun, hreinsun, endurnýtingu, fjöleldi/rækt, koma í veg fyrir laxalús og sníkjudýr og fjölmörgu öðru. Þannig var það í kjölfar misheppnaðra tilrauna með eldiskvíar hérlendis og menn byggðu öflugar eldisstöðvar á landi í kjölfarið. Hérlend uppbygging kvíaeldis er í raun tímaskekkja og afturför, víða erlendis þrengir að kvíaeldi og menn loks farnir að horfa til lands. Hugsanlega myndi það hvetja menn til að stunda ábyrgara fiskeldi ef leyfin myndu kosta svipað og gerist víða erlendis, t.d. eins og í Noregi. Hugsanlega er einmitt þarna að finna skýringuna á þessari uppbyggingu, það verða líklega settir verðmiðar á þetta að lokum og einhverjir munu hugsanlega hagnast vel af því sem ekki þurfti að greiða mikið fyrir í upphafi. Hver fórnarkostnaðurinn verður mun tíminn leiða í ljós. Fiskeldi er framtíðar atvinnuvegur, hátækni matvælaframleiðsla með mikla möguleika og fjölmargt jákvætt hægt að tilgreina en kvíaeldi með þessum hætti er ekki farsælt til framtíðar.

 

Hvað er í húfi?

Laxfiskar hér við land hafa í mörg þúsund ár aðlagað sig að mismunandi vatnakerfum og umhverfisaðstæðum og eru mismunandi stofnar í ám og vötnum. Hver og einn stofn er í raun hópur laxfiska með uppsöfnuð lífsviðbrögð, ef svo má að orði komast, þar sem líkamsbygging, hegðun og almennt lífshlaup hefur mótast af aðstæðum í hverju vatnakerfi fyrir sig. Í þessu ljósi ætti að vera skýrt hve mikla áhættu er verið að taka með því að heimila eldi á norskum frjóum laxi í eldiskvíum hér við land.  Hvaða erfðafræðilegu þættir frá norskum eldislaxi ættu að geta orðið íslenskum villtum laxastofnum til gagns? Það er hrein fásinna að halda því fram að yfirvofandi erfðablöndum frá norskum eldislaxi hafi ekki neikvæð áhrif á villta laxastofna hér við land. Slík afneitun byggir ekki á líffræðilegum grunni og virðist fremur byggja á öðrum hagsmunum.