Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. ágúst 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 14. ágúst.

 

Það er ýmist í ökkla eða eyra vatnsbúskapurinn í ánum okkar þessa dagana en á sumum svæðum gerði úrhellis rigningu sem hamlaði veiði um tíma og síðan var úrkomu naumt skammtað á öðrum svæðum. Víðast hvar hefur veiði tekið kipp um leið og úrkoma hefur hresst upp á vatnsbúskapinn og skilyrði til veiða bötnuðu. 

 

Af efstu tíu ám á listanum okkar eru þrjár sem eru með nánast sömu veiði og á svipuðum tíma í fyrra en það eru Hofsá og Sunnudalsá, Selá í Vopnafirði og Laxá á Ásum. Sömu sögu er því miður ekki hægt að segja um hinar enn sem komið er. Þær sjö ár sem eftir eru á listanum yfir tíu efstu árnar vantar samtals 5467 laxa til að veiðin sé sú sama og á svipuðum tíma í fyrra. 

 

Eystri-Rangá heldur yfirburðum sínum, er ríflega helmingi hærri en sú sem næst kemur og er fyrsta vatnakerfið sem fer yfir 2000 laxa þetta veiðitímabilið. Veiðin er komin í 2316 laxa eftir afar góða veiðiviku sem skilaði 493 löxum.

 

Selá í Vopnafirði er í öðru sæti og komin yfir 1000 laxa markið og tveimur löxum betur. Veiðivikan gekk mjög vel og skilaði 208 löxum og er veiðin samtals nánast jafnmikil og á svipuðum tíma í fyrra.

 

Í þriðja sæti og rétt undir 1000 laxa markinu er Ytri-Rangá sem komin er í 994 laxa og skilaði síðasta veiðivika góðri veiði 217 löxum sem er aukning um 68 laxa frá veiðivikunni á undan. Miðað við góðan gang í veiði þá er án efa Ytri-Rangá komin yfir 1000 laxa markið þegar þetta er skrifað.

 

Í fjórða sæti er Miðfjarðará sem einnig nálgast 1000 markið en þar gengur veiðin vel, veiðin komin í samtals 984 laxa. Síðasta veiðivika er sú besta til þessa og skilaði 217 löxum. Miðað við hvernig gengur þessa dagana þá er líklegt að Miðfjarðaráin fari yfir 1000 laxa markið eftir veiði í dag eða á morgun.

 

Í fimmta sæti er Urriðafoss í Þjórsá en þar er veiðin komin í 715 laxa. Síðasta veiðivika skilaði 10 löxum.

 

Hér fyrir neðan eru tíu efstu vatnakerfin.

 

Til fróðleiks þá er veiði borin saman við svipaðan tíma í fyrra (15.08.2018) og í sviga má sjá hve miklu munar. 

 

1.  Eystri-Rangá 2316 laxar - vikuveiði 493 laxar. (-335)

 

2.  Selá í Vopnafirði  1002 laxar - vikuveiði 208 laxar. (-27)

 

3.  Ytri-Rangá 994 laxar - vikuveiði 217 laxar. (-1294)

 

4.  Miðfjarðará 984 laxar - vikuveiðin 217  laxar. (-879)

 

5.  Urriðafoss í Þjórsá 715 laxar - vikuveiði 10 laxar. (-424)

 

6.  Blanda 561 laxa - vikuveiði 20 laxar. (-287)

 

7.  Þverá/Kjarará 532 laxar - vikuveiði 62 laxar. (-1670)

 

8. Laxá á Ásum 502 laxar - vikuveiði 144 laxar. (-20)

 

9.  Hofsá og Sunnudalsá 460 laxar - vikuveiðin 68  laxar. (-45)

   

10. Haffjarðará  435 laxar - vikuveiði 87 laxar. (-852)

 

 

Hér er hægt að skoða lengri lista með veiðitölum úr tæplega 50 vatnakerfum. Sjá nánar hér. 

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast.

 

Ágætt er að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

Hér er hægt að lesa áskorun í heild sinni.

 

Athygli er vakin á að velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að láta stangarfjölda fylgja og veiði á silung er auðvitað vel þegin.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398