Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
15. ágúst 2019

Mikill erfðafræðilegur munur á löxum eftir ám

Lax gengur í um 100 íslenskar ár og í hverri á um sig er sérstakur stofn sem hefur sín sérkenni. Erfðafræðilegur munur á stofnum getur verið mikill því laxinn lagar sig að ánni og árnar eru mjög misjafnar. Sviðsstjóri fersksvatnslífríkis hjá Hafrannsóknastofnun segir að þó svo veiði hafi verið rýr í ám á Suðvesturlandi hafi slíkt gerst áður.
 

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis Hafrannsóknastofnunar, spjallaði um lax vítt og breitt í Morgunvaktinni á Rás 1.  Hér á landi gengur lax í um það bil 100 ár en þá er átt við þær ár sem hafa nýtingu. Tegundin sem er hér á landi er Atlantshafslax, en það er sama tegund og annars staðar í Evrópu og Norður-Atlantshafi. Hann er frábrugðinn laxategundum sem finnast í öðrum löndum auk þess sem það er sérstakur stofn í hverri á. „Aðlögunin er býsna mikil og erfðafræðilega er mikill munur eða með því meira sem gerist hjá dýrategundum,“ segir Guðni. 

 

Þekking á íslenskum laxi er alltaf að aukast en Guðni segir að sífellt komi eitthvað nýtt í ljós því umhverfið sé að breytast. Grunnrannsóknir Hafrannsóknarstofnunar eru kostaðar af opinberu fé en hluti af því er vöktun og kerfisbundnar endurteknar mælingar á stofnum.

 

Vissulega þörf fyrir verndaráætlun 

Auðkýfingurinn Jim Rattcliffe lýsti því yfir á dögunum að tilgangur hans með kaupum á jörðum á Norðausturlandi væri að vernda íslenska laxastofninn. Guðni sagði vissulega sé þörf á verndaráætlun en að kveðið væri á um vernd stofnanna í lögum um lax- og silungsveiði enda markmið þeirra að nýting sé sjálfbær. Með öðrum orðum megi ekki ganga á stofna, hvorki á erfðafræðilegan breytileika þeirra né tímgunargetu.  Laxastofnar við Atlantshaf hafa minnkað og segir Guðni ýmsar ástæður fyrir því. Þó hafi verið gripið til ýmissa aðgerða, nánast allar veiðar í sjó hafa verið stoppaðar en svo sé ýmislegt annað sem þarf að huga að.

 

Veiðiálag á Íslandi er takmarkað því í hverri á er ákveðinn fjöldi stanga leyfður. Verðmæti íslenskra laxa sem eru veiddir sé með því hæsta sem að gerist og þær tekjur sem veiðin myndar skipta byggðarlög miklu máli. „Hver á getur fóstrað ákveðinn fjölda af seiðum og til þess þarf ákveðinn fjölda af hrognum sem þá þurfa ákveðið margar hrygnur og verið er að vinna að því að setja viðmiðunarmörk fyrir árnar“ segir Guðni. Hann segir að veiðimenn fái þann lax sem er umfram áætlaða framleiðslugetu. Mikið sé um að veiðimenn veiði og sleppi en Guðni segir það hafa þann kost að veiðimenn geti stundað veiði sína og fiskarnir farið aftur út í á og tímgað sig. 

 

Hefur áður gerst að veiði sé rýr

Guðni segir veiðimennina einnig oft á undan veiðréttarhöfum að koma með aðgerðir þegar lítið er um lax, víða séu reglur um að veiða og sleppa og sums staðar ber að sleppa öllum laxi. Guðni segir þetta þó misjafnt eftir veiðifélögum því þau séu mörg. Veiðin hefur verið rýr í ám á Suðvesturlandi það sem af er sumri en það var fyrirséð að ekki stefndi í neitt góðæri í veiðinni.  „Við höfðum grun um að það því sá árgangur sem myndi standa undir smálaxagegndinni hér á landi í ár hefur alltaf mælst lítill en hann er frá árinu 2014 og þá mældist líka svona lítil veiði,“ segir Guðni. 

 

Til að fá góðan árgang þarf samspilið á milli góðrar endurheimtar úr sjó og fjölda seiða að vera gott en í ár leggst þurrkaástand ofan á þannig að fiskar eiga erfitt með að ganga í ár og veiðimenn erfitt með að athafna sig. Guðni segir að þó þetta sé ekki gott veiðiár þá hafi þau verið verri. „Þetta er með því verra hér á Suðurlandi en við höfum séð t.d. á Norðausturlandi, þeir sem muna árin eftir 1989, þau voru ekki mjög björguleg því þetta voru mjög köld ár þannig þetta hefur gerst áður.“

 

Hafrannsóknastofnun skorar á veiðimenn að sleppa

Þann 19. júlí síðastliðinn skoraði Hafrannsóknastofnun á veiðimenn að sleppa löxum aftur í ár og gæta hófs í veiðum til að styrkja hrygningarstofninn.  Landssambands veiðifélaga hvetur einnig veiðimenn til að virða tilmælin til að sporna við frekari minnkun laxastofna.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is og þar er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.