Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
8. ágúst 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 7. ágúst. 

 

Sem fyrr eru víða aðstæður til veiða erfiðar sökum bágs vatnsbúskapar og eru það einna helst dragárnar sem líða fyrir úrkomuleysið og engan forða en sá fór því miður í hlýindum, úrkomu og vatnavöxtum í apríl. En jafnframt eru margar jökulár óvenju mikið litaðar af leir og skyggni af þeim sökum slæmt. Hlýindi og mikil sólbráð er líklega að leysa eldri lög með tilheyrandi óhreinindum. Í sumum vatnakerfum er jökulvatn hluti af því vatnasviði sem fæðir og getur haft töluverð áhrif þegar hlutur þess eykst og þá sér í lagi ef þegar mikill leir litar.

 

Hvað veiði varðar þetta veiðitímabilið þá er það sem er að eiga sér stað einfaldlega fordæmalaust og ástand sumstaðar með þeim hætti að líklega væri best að sleppa öllum laxi eða hreinlega hlífa fyrir veiði. Reyndar gerist það af sjálfu sér í þeim tilvikum þar sem hreinlega ekki veiðist sökum aðstæðna. Ágætt er að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

Hér er hægt að lesa áskorun í heild sinni.

 

 

Þrátt fyrir að veiðitölur víðast hvar séu langt undir því sem menn eiga að venjast þá gengur veiði sumstaðar ágætlega. Má þar nefna Eystri-Rangá sem eins og fyrr er efst á listanum með mikla yfirburði og komin í 1823 laxa sem er rúmlega þúsund meira en sú sem næst kemur. Síðasta veiðivika gekk mjög vel og skilaði 474 löxum og með þessu áframhaldi styttist óðum í að Eystri-Rangá fari yfir 2000 laxa markið.

 

Veiði gengur vel í Selá í Vopnafirði sem komin er í 794 laxa en hún fer úr fimmta sæti í annað sæti á listanum okkar. Veiðivikan gekk mjög vel og skilaði 188 löxum og miðað við gott gengi undanfarnar veiðivikur þá fer Selá yfir 1000 laxa markið á næstunni.

 

Í þriðja sæti of færist upp um eitt er Ytri-Rangá með 777 laxa en þar gengur veiði ágætlega og skilaði síðasta veiðivika 149 löxum sem er nánast sama vikuveiði og síðast.

 

Í fjórða sæti er Miðfjarðará með samtals 767 laxa og skilaði síðasta veiðivika 120 löxum.

 

Í fimmta sæti er Urriðafoss í Þjórsá með 705 laxa en þar hafa aðstæður til veiða verið erfiðar sökum leirlitaðs jökulvatns en nóg er af laxi á svæðinu. Síðasta veiðivika skilaði 25 löxum sem er minna en veiðivikan á undan skilaði.

 

Hér fyrir neðan eru tíu efstu vatnakerfin.

 

Til fróðleiks þá er veiði borin saman við svipaðan tíma í fyrra (08.08.2018) og í sviga má sjá hve miklu munar. 

 

1.  Eystri-Rangá 1823 laxar - vikuveiði 474 laxar. (-179)

 

2.  Selá í Vopnafirði  794 laxar - vikuveiði 188 laxar. (-69)

 

3.  Ytri-Rangá 777 laxar - vikuveiði 149 laxar. (-1115)

 

4.  Miðfjarðará 767 laxar - vikuveiðin 120  laxar. (-915)

 

5.  Urriðafoss í Þjórsá 705 laxar - vikuveiði 25 laxar. (-390)

 

6.  Blanda 541 laxa - vikuveiði 61 laxar. (-291)

 

7.  Þverá/Kjarará 470 laxar - vikuveiði 49 laxar. (-1641)

 

8.  Hofsá og Sunnudalsá 392 laxar - vikuveiðin 67 laxar. (-52)

   

9.  Elliðaárnar 390 laxar - vikuveiði 39 laxar. (-366)

 

 

10. Laxá á Ásum 358 laxar - vikuveiði 83 laxar. (-109)

 

  

Hér er hægt að skoða lengri lista með veiðitölum úr tæplega 50 vatnakerfum. Sjá nánar hér. 

 

Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verða settar inn þegar þær berast.

 

Athygli er vakin á að velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Gott er að láta stangarfjölda fylgja og veiði á silung er auðvitað vel þegin.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398