Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. júlí 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 3. júlí síðastliðinn. 

 

Nú hefur veiði hafist í öllum vatnakerfum þetta veiðitímabilið. Veiðitölur hafa borist frá rúmlega 40 ám og væntanlega bætast nokkrar í viðbót þegar fram líður. Hafa ber í huga að í sumum ám er fjöldi stanga breytilegur. Þó búið sé að opna fyrir veiði þá getur það verið með færri stöngum í upphafi sem síðan fjölgar þegar opnað er fyrir allt veiðisvæðið.

 

Veiði síðustu veiðiviku ber með sér að vatnsbúskapur hefur sumstaðar færst í betra horf og betri veiði fylgt í kjölfarið. Það er töluvert léttara yfir mönnum miðað við vikuna á undan og er það skiljanlegt enda fordæmalaust ástand hvað vatnsbúskap varðar. Aðeins er farið að bera á smálax og er hann vel á sig kominn en það gildir einnig um stórlaxinn víðast hvar. Aðstæður í hafi virðast hafar verið hagstæðar hvað fæðu varðar og þetta lofar góðu. 

 

 

Hafa ber í huga að veiðitölur úr mörgum ám, sérstaklega dragám, eru fyrst og fremst að endurspegla erfiðar aðstæður hvað vatnsbúskap varðar. Það færist vonandi til betri vegar sem fyrst.

 

Efst á listanum er Urriðafoss í Þjórsá með 427 laxa og vikuveiði var 108 laxar.  Alls er veitt á fjórar stangir á svæðinu.

 

Þetta veiðisvæði við Urriðafoss í Þjórsá er samstarfsverkefni landeigenda og Iceland Outfitters og hófst sem tilraunaverkefni árið 2016. Markmið þessa samstarfsverkefnis er að fjölga stangveiðidögum, fækka netaveiðidögum og vonandi að lokum að breyta þessu fallega svæði þannig að þar yrði alfarið stangveiði. Það er óhætt að segja að þetta verkefni gangi vel og lofar framhaldið góðu.

 

Eystri-Rangá er í öðru sæti en þar hafa veiðst 235 laxar og vikuveiði var 142 laxar. Geta má þess að veiðin á svipuðum tíma í fyrra var 86 laxar og er því veiðin nú 149 löxum meiri en í fyrra en þá endaði veiðin í 3960 löxum. Eins og veiðin fer af stað þá lofar framhaldið góðu. 

 

Blanda er í þriðja sæti með alls 135 laxa og skilaði veiðivikan 25 löxum.

 

Miðfjarðará er í fjórða sæti með alls 118 laxa og síðasta veiðivika skilaði 55 löxum.

 

Í fimmta sæti er Brennan í Hvítá þar sem alls hafa veiðst 107 laxar. Vikuveiðin var 14 laxar.

 

Hér fyrir neðan eru tíu efstu vatnakerfin

 

1. Urriðafoss í Þjórsá 427 laxar - vikuveiði 108 laxar.

 

2. Eystri-Rangá 235 laxar - vikuveiði 142 laxar.

 

3. Blanda 135 laxa - vikuveiði 25 laxar.

 

4. Miðfjarðará 118 laxar - vikuveiðin 55 laxar.

 

5. Brennan 107 laxar - vikuveiðin 14 laxar.

 

6. Ytri-Rangá 93 laxar - vikuveiði  36 laxar.

 

7. Þverá/Kjarará 91 laxar - vikuveiði 62 laxar.

 

7. Haffjarðará 91 laxar - vikuveiði 51 laxar.

 

8. Elliðaárnar 81 laxar - vikuveiði 45 laxar.

 

9.  Laxá í Aðaldal 70 laxar - vikuveiði 26 laxar. 

 

10. Grímsá og Tunguá 66 laxar - vikuveiði 35 laxar.

 

Hér er hægt að skoða lengri lista með veiðitölum úr rúmlega 40 vatnakerfum. Sjá nánar hér

 

Athygli er vakin á því að þó við erum með 25 gagnagrunnsár, sem við söfnum vikulega gögnum frá, þá er velkomið að senda inn veiðitölur úr öðrum vatnakerfum og við birtum þær hér á vefnum. Einna best er að fá veiðitölur í lok veiði miðvikudags kvölds en það gerir samanburð fróðlegri og auðveldari. Einnig er gott að láta stangarfjölda fylgja.

 

Hægt er að senda inn veiðitölur á bjorn@angling eða hringja/senda sms í síma 852-3398