Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. júlí 2019

Laxalús á villtum fiskum á Vestfjörðum

Nýverið kom út áhugavert MSc verkefni Evu Daggar Jóhannesdóttur um laxalús á villtum fiskum á Vestfjörðum og er útdráttur birtur hér að neðan. Hægt er að sækja verkefnið í heild sinni sem pdf-skjal á vefnum Skemman.

 

Laxalús, Lepeophtheirus salmonis og grálús Caligus elongatus, eru náttúruleg sníkjudýr á laxfiskum í sjó. Lýsnar nærast á slímhúð, roði og blóði fiskanna og valda þannig streitu hjá þeim. Þær geta einar og sér valdið dauða fiska séu þær í miklum mæli en geta auk þess borið með sér aðra sýkla. Rannsóknir sýna að á svæðum þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er stundað eru villtir laxfiskar meira smitaðir af sjávarlús, einna helst laxalús, heldur en svæðum án eldis.

 

Þroskun laxalúsar frá copepodid að fyrsta forstigi fullorðins stigs. Mynd © EDJ

Eldi á laxi (Salmo salar) ísjó er nýleg atvinnugrein á Íslandi og því mikilvægt að afla þekkingar um sjávarlýs á villtum laxfiskum. Lúsasmit var kannað á villtum laxfiskum í Arnarfirði árið 2014 og í Tálknfirði og Patreksfirði árið 2015. Laxeldi var stundað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða árið 2017. Í þessu verkefni var lúsasmit villtra laxfiska, sjóbirtings (Salmo trutta) og sjóbleikju (Salvelinus alpinus), kannað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða frá júní til september 2017 og niðurstöður bornar saman við lúsatalningar í kvíum á svæðinu, sem og fyrri athuganir á villtum laxfiskum.

 

Niðurstöður sýna aukið smit villtra laxfiska á svæðinu og gefa vísbendingu um neikvæð áhrif á þessa stofna. Einnig kom í ljós að lúsategundirnar tvær virðast smita eldislaxa og villta sjóbirtinga á ólíkan hátt.

 

 

 Þetta verkefni er að finna sem pdf-skjal í heild sinni á vefnum Skemman eða hér