Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. júní 2019

Vakta laxa í veiðiám í Ísafjarðardjúpi

Með vöktunarkerfi í laxveiðiám er hægt að skoða hvern einasta fisk sem fer upp ána. Þannig má fylgjast með náttúrulegum stofnum og mögulegri gengd eldisfiska. 
 

Framkvæmdir í Langadalsá

Það eru framkvæmdir í Langadalsá í botni Ísafjarðardjúps. „Við erum að stífla ána, þetta er stífla og það kemur teljari þarna í rennuna þar sem að þeir eru að vinna, strákarnir,“ segir Sveinn Ingi Guðbjörnsson, byggingaverktaki hjá Vestfirskum verktökum. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 25 milljónir og eru fjármagnaðar af Umhverfissjóði sjókvíaeldis.

 

Hægt að skoða fiskana sem sem fara um teljarann

Með teljaranum á að fylgjast með fiskgengd, eins og í tíu öðrum laxveiðiám á landinu. Til þess er notaður vöktunarbúnaður sem er kallaður árvaki og er eins og sá sem er kominn í fiskveg Laugardalsár í Ísafjarðardjúpi. Búnaðurinn er settur niður að vori, helst áður en laxagengd hefst. „Fiskurinn á enga aðra leið aðra en að fara hér í gegn um þessa túðu,“ segir Ingi Rúnar Jónsson, fiskifræðingur. „Þegar fiskurinn fer hér í gegn þá vistast stærðarmælingin á honum, tíminn hvenær hann er að fara og tengdt við myndband af viðkomandi fiski,“ segir Ingi Rúnar. „Við sjáum að hér eru lýs á honum, við sjáum tegundina, þetta er lax.“

En svo eru reyndar ekki bara laxar sem fara um teljarann, eins og önd sem fór um einn teljarann. – Henni finnst ef til vill laxinn fá of stóran hluta af sviðsljósinu. 

 

Fyrir áhættumat Hafrannsóknastofnunar

Vöktuninni er ætlað að sannreyna forsendur áhættumats Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun laxastofna og nýtast til endurmats á áhættu erfðablöndunar vegna laxeldis. Í fyrra veiddist einn eldislax í Laugardalsá. Fjármagn til vöktunar var á fjárlögum og þá hefur Hafrannsóknastofnun opnað vefsíðu þar sem er hægt að fylgjast með vöktun á löxum í veiðiám. 

 

Gætuð þið séð þarna að hann væri úr eldi? „Ef hann ber þessi týpísku eldiseinkenni, er öðruvísi í laginu, jafnvel brot í uggum. Þá ættum við að geta séð það í þessu.“

Þá er vöktuninni einnig ætlað að efla þekkingu á stofnunum sem fyrir eru. „Vita meira um stofninn og að hann sé sterkur og fylgjast með hugsanlegri innkomu eldislaxa,“ segir Ingi.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum ruv.is en þar er jafnframt hægt að skoða myndskeið með frétt,