Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. febrúar 2019

Starfræksla fjarstýrðara loftfara

Landssamband veiðifélaga hefur sent Samgöngustofu bréf, 17.01.2019. þar sem óskað er eftir breytingu á reglugerð er varðar starfrækslu fjarstýrðara loftfara. Svar hefur borist frá Samgöngustofu, 25.01.2019 og er það að finna hér að neðan.

 

Á aðalfundi Landssambands veiðifélaga sem haldinn var í júní 2018 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

 

„Aðalfundur Landssambands veiðifélaga, haldinn á Sauðárkróki dagana 8. - 9.  júní 2018, beinir því til stjórnar LV hvernig takmarka megi notkun dróna við veiðistaði.

Jafnframt beinir aðalfundurinn því til stjórnar Landssambands veiðifélaga að þrýst verði á þar til bær yfirvöld, að í reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara nr. 990/2017, verði sett ákvæði um að umferð dróna við veiðistaði verði óheimil nema með leyfi veiðifélags eða  opinberra stjórnvalda, eða sem hluti af venjulegri notkun landeigenda á eigin jörð. 

Greinargerð:

Á undanförnum árum hefur notkun dróna aukist og gæði þeirra hafa batnað. Mikið ónæði getur fylgt slíkri notkun fyrir veiðimenn sem vilja njóta næðis við veiðivötn, auk þess sem hægt er með slíkum tækjum að afla upplýsinga sem geta varðað persónuvernd. Vísað er til  17. greinar laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, þar sem fjallað er um frjálsa för um landið og þær takmarkanir sem henni fylgja og er ljóst að þessi ákvæði eigi við um umferð dróna. Beina þarf því til Samgöngustofu að gætt sé að takmörkunum samanber þessi ákvæði náttúruverndarlaga, sjónarmiða um persónuvernd o.fl. vegna framfylgdar reglugerðar um starfrækslu fjarstýrðra loftfara (990/2017).“ 

 

Hér með er leitað svara við því hvort 5. töluliður/mgr. 12. gr. reglugerðar, nr. 990/2017, heimili Samgöngustofu setja sértækar notkunarreglur um meðferð dróna við lax- og silungsveiðiár og veiðivötn, á veiðitíma lax- og silungs ?

 

Ef svo er þá óskar Landssamband veiðifélaga eftir samstarfi við Samgöngustofu um mótun á slíkum reglum.

 

Svar Samgöngustofu 25.01.2019

 

Vísað er til erindis þíns dags. 17. janúar sl. þar sem þú óskar eftir því að Samgöngustofa setji sértækar notkunarreglur um meðferð dróna við lax- og silungsveiðiár og veiðivötn, á veiðitíma lax- og silungs.

 

Ég bendi þér á að í 4. tl. 12. gr. reglugerðar um dróna er gert ráð fyrir því að stjórnvöld á sviði náttúruverndar geti sett sértækar notkunarreglur/takmarkanir á notkun lands á grundvelli þeirra lagaheimilda sem þau stjórnvöld hafa. Þá hafa eigendur landsvæðis, á grundvelli almennra eignarréttarreglna heimildir til þess að banna umgengni manna á landi sínu.

 

Þær heimildir sem gert er ráð fyrir að Samgöngustofa hafi til þess að takmarka flug, miða að því að setja takmarkanir þar sem öryggi manna og annarra loftfara kann að vera ógnað, s.s. þar sem fjöldi manna finnst fyrir (í þéttbýli) eða í námunda við flugvelli. Ekki er gert ráð fyrir að Samgöngustofa setji slíkar sértækar reglur líkt og þú nefnir.

 

Þar sem þú vísar til laga um persónuvernd, og að drónar geti aflað upplýsinga sem þeim sé ekki heimilt að afla á grundvelli laga um persónuvernd, kemur skýrt fram í 10. gr. reglugerðarinnar að notendur dróna skuli virða persónuverndarlög og almennar reglur um friðhelgi einkalífs. Teljið þið þær reglur brotnar bendi ég ykkur á að snúa ykkur til Persónuverndar (eða lögreglu) með erindi ykkar.  Einnig getið þið haft samband við lögreglu ef þið teljið almennu öryggi ógnað.

 

Að lokum vil ég nefna að á næstu misserum er líklegt að nýjar samevrópskar reglur um notkun dróna taki gildi hérlendis og miðað við þær tillögur sem koma fram þar geta drónar við ákveðin skilyrði verið aðeins í 5 metra fjarlægð frá óviðkomandi manneskju án þess að lög séu brotin.

 

Með bestu kveðju,

Rafn Jónsson

 

Eftirlitsmaður

 

Flugrekstrardeild

 

Hér er hægt að sækja bréf Landssambands veiðifélaga sem var sent Samgöngustofu.

Pdf-skjal eða Word-skjal.