Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
9. mars 2016

Fyrirhuguð aukning laxeldis í Arnarfirði um 7500 tonn

Eftirfarandi bréf Landssambands veiðifélaga var sent Skipulagsstofnun 8. mars. Gerðar eru athugasemdir við sameiginlega tillögu  Fjarðarlax ehf. og  Artic Sea Farm hf. að matsáætlun  í Arnarfirði. Í tillögum er fyrirhuguð aukning  laxeldis á svæðinu um 7500  tonn. Með aukningunni yrði samanlögð framleiðsla fyrirtækjanna allt að 10 þúsund tonn af laxi. Hér fyrir neðan er viðkomandi bréf:

    

Athugasemdir Landssambands veiðifélaga.

Almennt

Með fyrirliggjandi tillögu að matsskýrslu tilkynna framangreind fyrirtæki áform um að auka framleiðslu á laxi í sjókvíum í Arnarfirði um 7500 tonn.  Með aukningunni yrði samanlögð framleiðsla fyrirtækjanna allt að 10 þúsund tonn af laxi.  Ljóst má vera að fyrirhuguð framleiðsluaukning þýðir að gríðarlegur fjöldi laxa verður í sjókvíum fyrirtækjanna í Arnarfirði.  Slíku magni fylgir mikið álag á umhverfi og ekki síður hætta á alvarlegu umhverfisslysi af völdum strokulaxa.  Fyrirtækin hyggjast nota frjóan norskan lax til framleiðslunnar og má ætla að til að framleiðslumagni verði náð skipti fjöldi útsettra seiða nokkrum milljónum.  Ljóst er,  þegar bornar eru saman opinberar tölur  um  fjölda útsettra  laxaseiða við framleiðslutölur í sjókvíaeldi , að fram koma  mikil og óútskýrð afföll af laxa  í eldinu.  Ekki er ljóst af hvaða sökum afföll í sjókvíaeldi eru mun meiri hér en t.d. í Noregi þar sem hartnær 4 kg af eldislaxi eru framleidd fyrir hvert útsett seiði og í Færeyjum mun  þetta hlutfall vera nokkru hærra.     

Í fyrirliggjandi tillögu að matsskýrslu er ekki fjallað um þennan þátt málsins þótt bæði fyrirtækin hafi nú nokkurra ára reynslu af eldi laxa og regnbogasilungs í sjókvíum. Þá er vakin athygli á að fyrirliggjandi tillaga virðist að hluta til eldri en dagsetning gefur til kynna þar sem finna má í tillögunni úreltar tilvitnanir m.a.  í lagaákvæði.  Einnig er bent á ruglingslega framsetningu á framleiðslumagni í  tillögunni sem lagfæra má  í matsskýrslu.  Þá gerir Landssamband veiðifélaga athugasemd við að tvær  framkvæmdir óskyldra aðila,  Fjarðarlax ehf. og Artic Sea Farm hf.,  skuli vera metnar sameiginlega í einni tillögu að matsáætlun líkt og um einn og sama framkvæmdaraðila væri að ræða.

 

Sammögnunarráhrif

Landssamband veiðifélaga telur að skylt sé í matsskýrslu að fjallað verði um sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar við aðrar framkvæmdir á svæðinu sbr. lll viðauka laga nr. 106/2000.  Enga slíka umfjöllun er að finna í fyrirliggjandi tillögu að matsáætlun.  Landssambandið telur að í ljósi gríðarlegra áforma í sjókvíaeldi á norskum laxi við Ísland verði að skoða sammögnunaráhrif allra eldisframkvæmda við Ísland með tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem sammögnun framkvæmda kann að valda í íslenskum laxveiðiám.  

 

Veiðimálastofnun hefur um nokkurt árabil rannsakað sjávarvist villtra laxa og hefur sú rannsókn  leitt í ljós að laxinn ferðast langar vegalengdir í hafinu og staðsetur sig þar sem hiti og æti er ákjósanlegast.  Fjarlægðarvernd vegna staðsetningar eldisins er því mjög takmörkuð.

http://veidimal.is/Default.asp?Sid_Id=22185&tre_rod=001|001|007|&tId=2&FRE_ID=194940&Meira=1.  

 

Laxveiðiár er að finna í öllum landshlutum og hver þeirra hefur sinn eigin laxastofn.  Svo umfangsmikið eldi líkt og nú er áformað á Vestfjörðum og fyrir Austurlandi kann því almennt að ógna tilvist laxastofna og því brýnt að mat á heildarálagi sbr. fyrirmæli 10. gr. l. Nr. 60/2013 fari fram.  Landssambandið gerir kröfu um að mat á heildarálagi fari fram áður en Skipulagsstofnun gefur endanlegt álit á framkvæmdum.  Vísað er í þessu sambandi til niðurstöðu  Úrskurðarnefndar um umhverfis-og auðlindamál  nr.  43/2012  en í niðurstöðu nefndarinnar  segir:    Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Skipulagsstofnun telji að neikvæð áhrif fyrirhugaðs laxeldis HG í sjókvíum kunni helst að vera blöndun erfðaefnis milli eldisfisks af norskum uppruna og villtra laxa í veiðiám í Ísafjarðardjúpi. Þó fyrirhuguð eldissvæði verði í hæfilegri fjarlægð frá ánum miðað við ákvæði reglugerðar verði ekki fram hjá því horft að þó enn sé takmörkuð reynsla af sjókvíaeldi við Ísland sé dæmi um að eldisfiskur hafi sloppið úr eldi í umtalsverðu magni og vísbendingar um að kynþroska eldisfiskur hafi fundist í laxveiðiám.  Eðli málsins samkvæmt sé ekki komin reynsla og þekking á því hvort eldislax hrygni í ám landsins eða hvort erfðaefni hans blandist villtum erfðum og ef svo sé hvort og hvaða neikvæðu áhrif það kunni að hafa.  Telji stofnunin að í ljósi skorts á grunnþekkingu á þessum þáttum megi gera ráð fyrir að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum stakrar framkvæmdar yrði mikilli óvissu háð hvað þetta varði.  Úrskurðarnefndin telur að skortur á grunnþekkingu eins og hér er lýst eigi ekki að leiða til þeirrar niðurstöðu að framkvæmd teljist ekki matsskyld.  Er slík niðurstaða í andstöðu við reglur alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og varúðarreglu sem nefndin telur að líta beri til, en til þeirra er vísað í alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að.  Hefur varúðarregla jafnframt verið sett í lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi, sbr. 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þau öðlast þó ekki gildi fyrr en hinn 1. apríl 2014.  Kemur hér og til að Skipulagsstofnun getur því aðeins mælt fyrir um mótvægisaðgerðir sem áhrif hafa að lögum að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. 

 

 Landssamband veiðifélaga telur augljóst að sömu sjónarmið eiga við  þegar Skipulagsstofnun gefur álit og metur á umhverfisáhrif fyrirhugaðar framkvæmdar.  Lögboðið mat á heildarálagi þarf að liggja fyrir svo stofnunin hafi þá grunnþekkingu sem byggja  verður á  og leggja  til grundvallar í áliti og mati stofnunarinnar á umhverfisáhrifum og þeim mótvægisaðgerðum  sem skylt er að stofnunin mæli fyrir um í áliti sínu og taka skulu mið af reglunni um  varúð og varúðarnálgun. 

 

Slysasleppingar

Í kafla 3. 3.1. kemur fram að árin 2017 og 2020 er ráðgert að setja um 3,5 milljónir af laxaseiðum í eldiskvíar í Fossfirði og um 1.500 þúsund laxaseiði í eldiskvíar í Trostansfirði. Eldisáform framkvæmdaraðila nema 10 þúsund tonnum að samanlögðu.  Reynsla Norðmanna er að 1 lax sleppi fyrir hvert tonn af laxi sem alið er.  Því má ætla að 10.000 laxar sleppi úr kvíum beggja framkvæmdaaðila ár hvert. Er þá ótalið sá fjöldi  laxa sem sleppur úr kvíum Arnarlax í sama firði. Veiðimálastofnun hefur rannsakað stöðu náttúrulegra fiskistofna í ám á svæðinu og þær rannsóknir gefa til kynna að útbreiðsla laxa- og silungsstofna sé meiri en áður var talið

http://veidimal.is/default.asp?sid_id=23836&tre_rod=003|002|&tId=15&meira=1&sky_id=20238.  

 

Landssamband veiðifélaga gerir athugasemdir við að tillaga að matsskýrslu tekur ekki  mið af framangreindu og  umfjöllun í skýrslunni því ófullnægjandi með öllu.  Þá eru engar upplýsingar að finna í fyrirliggjandi tillögu um farleiðir laxa sem sleppa úr kvíum og leita til hafs.  Landssambandið telur nauðsynlegt að upplýsingar þar að lútandi liggi fyrir við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.    Vísast til í þessu sambandi þegar laxar sluppu úr kví Fjarðarlax ehf.   í Patreksfirði haustið 2013.  Engin umfjöllun er í matsskýrslu um þann atburð eða merki þess að framkvæmdaraðilinn hafi dregið lærdóm af því sem þar skeði.  Alkunna er að lax úr kví framkvæmdaraðilans kom fram við Kleifaá í botni Patreksfjarðar síðsumars 2014 og hafði þá þroskað kynkirtla og því tilbúinn til hrygningar um þá um haustið.  Þá var það mat Veiðimálastofnunar sem rannsakaði eldislaxinn sem veiddist við Kleifaá að laxarnir kynnu að hafa sloppið á mismunandi tíma og því um fleiri atburði að ræða en framkvæmdaraðilinn tilkynnti til Fiskistofu.  Landssambandið telur eðlilegt að framkvæmdaraðilinn fjalli um þennan atburð, og í því ljósi, þau umhverfisáhrif  sem augljóslega leiða af umfangi fyrirhugaðrar framkvæmdar hans.  Í því sambandi skuli hann einnig  fjalla um áhrif þess þegar strokulaxar leita í ár á svæðinu og spilla hrygningu staðbundinna stofna.  Til hliðsjónar er  skýrsla norsku  Náttúrufræðistofnunarinnar NINA um alvarlegt ástand laxastofna í Noregi  sem birt er á þessu ári.

http://www.nina.no/Aktuelt/Nyhetsartikkel/ArticleId/3984.

 

Laxalús

Í Arnarfirði verður því sjókvíaeldi á vegum þriggja fyrirtækja.  Áform eru um að framleiðslu 20.000 tonna af laxi í sjókvíum ár hvert.  Það mun leiða til þess að eldismassi í kvíum í Arnarfirði verður á bilinu 20-30 þúsund tonn.  Þar sem þrjú aðskilin fyrirtæki hafa eldið með höndum verður varla um samræmda hvíld eldissvæða að ræða.  Svo mikill eldismassi eins og hér um ræðir er aðeins til þess fallinn að mikil smitmögnun lúsa verði milli eldisstöðva.  Laxalús kann bæði að berast með straumum milli eldissvæða og einnig eru líkur á að staðbundnir stofnar laxa og sjóbirtinga beri með sér  laxalús í eldisstöðvar.  Í athugasemdum við matsskýrslu Arnarlax frá árinu 2015 koma fram athugasemdir frá fyrirtækinu Fjarðarlaxi ehf.  sem nú stendur að fyrirhugaðri framkvæmd í Arnarfirði.   Í athugasemdum sínum gerir Fjarðarlax kröfu um að framkvæmdaraðilinn Arnarlax leggi fram trúverðugt mat á dreifingu á lirfum laxalúsar, bæði m.t.t. villtra laxafiskastofna í Arnarfirði og hættu á að lúsalirfur frá eldissvæðum Arnarlax muni berast inn á eldissvæði Fjarðalax í Fossfirði.  Vísaði fyrirtækið til nýrrar rannsóknar í Arnarfirði er staðfesti háa smittíðni hjá villtum sjóbirtingi sumarið 2014. Gerði fyrirtækið einnig kröfu um að Arnarlax legði fram straumlíkan fyrir Arnarfjörð í ljósi hættu á smitmögnun lúsa milli eldissvæða.   Í viðbrögðum framkvæmdaraðilans Arnarlax kemur m.a. fram að Ljóst er að lirfur laxalúsar geta borist á milli eldissvæða í firðinum. Þar að auki geta lirfur laxalúsar borist með villtum fiski yfir í eldisfisk og svo öfugt.

 http://www.skipulag.is/media/attachments/Umhverfismat/1090/Arnarlax-matssk%C3%BDrsla.pdf

 

Landssamband veiðifélaga telur augljóst að með þeirri miklu aukningu á lífmassa og fjölgun eldissvæða í Arnarfirði sem nú er fyrirhuguð magnist sú hætta sem fjallað er um í fyrrgreindri matsskýrslu og áhrif eldisins á villta stofna á svæðinu verði útrýming þeirra og þar með verulega neikvæð og óafturkræf.   Þá gerir Landssambandið kröfu Fjarðarlax, um að gerð straumlíkans í firðinum að sinni og telur  nauðsyn bera til þess að  straumlíkan liggi fyrir svo meta megi hættuna á dreifingu lirfu lúsa milli eldissvæða.

 

Sjúkdómahætta

Landssambandið gerir kröfu til að fjallað verði í matsskýrslu um hættu á að sjúkdómar berist í lax sem alinn er í sjókvíum við Ísland.  Í kafla 3.5 bls. 27 segir að Meginmarkmið kynslóðaskipts laxeldis er að forðast að sjúkdómar og sníkjudýr berist á milli kynslóða. Þess vegna hefur Arnarfirði verði skipt upp í þrjú kynslóðasvæði, A, B og C.   Alkunna er að sjúkdómahætta vex við aukið álag og þéttleika eldisdýra.  Þannig hefur laxeldi  t.d. í Færeyjum og Chile orðið fyrir miklum áföllum af þeim sökum.  Nú hefur sagan endurtekið sig og þá í Bresku Kólumbíu í Kanada.

http://www.foodsafetynews.com/2016/01/most-feared-salmon-virus-has-arrived-in-bc-waters/#.VtWuVPmLSUk.

 

Þá er sú hætta ávallt fyrir hendi þegar um þauleldi er að ræða að veirur sem hættulegar eru lífríki stökkbreytist og verði sjúkdómsvaldur.  Má þar nefna t.d. veirusjúkdóma í hænsnum og svínum.

 

Landssamband veiðifélaga vekur athygli Skipulagsstofnunar á að  framkvæmdaraðili á þess vart kost að hvíla eldissvæði til mótvægis við þessa hættu þar sem um þrjú fyrirtæki er að ræða sem  ala lax í Arnarfirði samkvæmt tillögu að matsskýrslu.  Landssambandið telur fráleitt með hliðsjón af reynslu annarra þjóða að vanmeta þá sjúkdómahættu sem leiðir af svo umfangsmiklu eldi og þeirri hættu sem strokulaxar valda af þeim sökum er þeir leita í ferskvatn til hrygningar.

 

Auðkenning laxa

 Landssamband veiðifélaga gerir athugasemdir við að ekki er fyrirhugað að fjalla um auðkenningu laxa sem ala skal í sjókvíum í fyrirliggjandi tillögu þótt ákvæði um slíkt sé nú að finna í lögum.

 

Um eldisstofn

 Í kafla 3.1.  framkvæmdalýsing kemur fram að til laxeldisins verða notuð seiði af kynbættum laxastofni Stofnfisks hf, sem nefnist Saga eldisstofn.  Enga frekari umfjöllun er að finna  um uppruna Saga eldisstofnsins sem er af norskum uppruna og var fluttur til landsins á níunda áratug síðustu aldar. Ekki er fjallað um samkomulag hagsmunaaðila og stjórnvalda frá árinu 1988 um að aldrei skuli leyfa að norski laxinn verði settur í sjókvíar hér við land.  Landssambandið telur skylt að fjallað verði nánar um Saga eldisstofn í matsskýrslu og þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um erfðasamanburð á norskum laxastofnum og þeim íslensku.  Sá þáttur hefur áhrif um mat á umhverfishættu sem leiðir af notkun á frjóum norskum löxum í sjókvíaeldi við Ísland. Í þessu sambandi vísast til rannsókna Veiðimálastofnunar um erfðasamsetningu laxastofna og mats Erfðanefndar landbúnaðarins um að hinn norski laxastofn SAGA teljist vera framandi stofn í íslenskri náttúru.  Þá liggur fyrir að fyrirtækið Stofnfiskur hefur nú yfir að ráða þekkingu til að framleiða geldan laxastofn til eldisins.  Sá valkostur að heimila aðeins notkun geldstofna í sjókvíum við Ísland hlýtur að koma til álita í ljósi þess að fyrirtækið Stofnfiskur flytur út hrogn, sem meðhöndluð hafa verið með þeim hætti að laxinn verður ófrjór,  til Noregs í nokkrum mæli á svæði þar sem bannað er eldi eða aukning eldis með frjóum laxi.  Fjallað verði í matsskýrslu um kosti þess að nota geldan laxastofn í eldið.

 

Hagrænir og félagslegir þættir

Í fyrirliggjandi tillögu er boðað að fjallað verði um hagræna og félagslega þætti í matsskýrslu.  Er vísað til skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða vann að beiðni Fiskeldisklasa Vestfjarða og boðað að helstu niðurstöður þeirrar greiningar verði birtar.  Landssamband veiðifélag telur mjög nauðsynlegt að samfélagsleg áhrif verði metin með ítarlegum hætti í áliti Skipulagsstofnunar með hliðsjón af stórfelldum laxeldisáformum á Vestfjörðum.  Fram kemur í áðurgreindri skýrslu að sú uppbygging sem fyrirhuguð er í laxeldinu, og mun krefjast mikillar aukningar mannafla á  svæðinu, reynir mjög  á innviði samfélagsins ef af verður.  Í skýrslunni kemur fram að meðaltalshagnaður í færeysku laxeldi frá árinu 2005 hafi verið 17.6%.   Sú tilvísun  sem og umfjöllun um staðbundin hagræn áhrif í Noregi verður varla lögð til grundvallar ef ekki er um leið gerður samanburður á  rekstrarárangri fyrirtækja framkvæmdaraðila sem hafa nú nokkurra ára reynslu af sjókvíaeldi á Vestfjörðum.  Landssamband veiðifélaga telur því nauðsyn bera til,  að við mat á samfélagslegum áhrifum,  verði jafnframt metin sú samfélagslega áhætta sem fylgir þeirri umfangsmiklu uppbyggingu innviða samfélagsins sem gríðarleg aukning laxeldis á svæðinu mun kalla á.  Í þessu sambandi er bent á að framkvæmdaraðilinn Fjarðarlax ehf. hefur nú rekstrarleyfi til að framleiða um 4500 tonn af laxi ár hvert.  Þrátt fyrir mikið magn útsettra seiða frá árinu 2011 hefur eldisárangur fyrirtækisins verið mjög slakur og ársframleiðslan aðeins verið um 2000 tonn af laxeldisafurðum undanfarin tvö ár  en fyrstu kynslóð laxa var slátrað hjá fyrirtækinu í apríl 2012.  Þá liggur fyrir opinberlega ársreikningur Fjarðarlax ehf.  Tölur í ársreikningi sýna viðvarandi taprekstur fyrirtækisins og að allt eigið fé félagsins er  upp urið í árslok 2014.  Með sama hætti hefur gengið bítandi á eigið fé annarra fyrirtækja í sjókvíaeldi undanfarin ár og nú leita fyrirtækin fyrir sé um aukið hlutafé erlendis frá.  Þessi rekstrarárangur  gefur vart til kynna að væntingar um jákvæð samfélagsleg áhrif, til lengri tíma litið, gangi eftir.  Þvert á móti virðist undirliggjandi mikil áhætta fyrir þau byggðarlög sem hlut eiga að máli þar sem ekki verður séð af ársreikningum að rekstrargrundvöllurinn sé traustur.  Í þessu sambandi vísast til umfangsmikillar eldisstarfsemi Sæsilfurs h.f í Mjóafirði og afdrif þeirrar starfsemi á árunum 2000-2006.  Þá er einnig vísað til þess er framkvæmdaraðili hugðist segja upp öllu vinnuafli í  vinnslu afurða á Patreksfirði á síðasta ári. Ekki hefur verið greint opinberlega frá hvort eða hverjar ívilnanir  sveitarfélagið kann að hafa veitt fyrirtæki framkvæmdaraðila svo fallið var frá áformum um uppsögn starfsmanna á staðnum.

http://www.visir.is/vinnsla-fiskeldisins-gaeti-horfid-burt-ur-byggdinni/article/2015150409413.

 

Málið allt er þó vísbending um hversu mikið lítt burðug sveitarfélög  leggja undir vegna þeirra áhættusömu starfsemi. sem sjókvíaeldi við Ísland er.  Fyrir liggja í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarðar spár um mannaflaþörf sem eru þá lýsandi fyrir framkvæmdaþörf sveitarfélaganna.  Nauðsynlegt er að í matsskýrslu fari fram ítarleg greining á þeim þáttum sem að framan greinir.  Þær upplýsingar sem fyrir liggja um rekstrargrundvöll  sjókvíaeldisfyrirtækja styðja ekki umfjöllun um hagræna þætti sem hvetur til óhóflegrar bjartsýni en ætti þess í stað að vera til varnaðar um alvarlegar afleiðingar þess fyrir smærri byggðarlög ef sagan úr Mjóafirði endurtekur sig.

 

Þegar lögum um fiskeldi  nr. 71/2008 var breytt með l. Nr. 49/2014 setti Landssamband veiðifélaga fram kröfu um að í lög um fiskeldi yrði sett ákvæði sem skyldaði laxeldisfyrirtæki til að kaupa tryggingar sem bæta skyldu það umhverfistjón sem starfsemin veldur á villtum laxastofnum og þar með þann skaða sem veiðiréttareigendur kunna að verða fyrir vegna strokulaxa í íslenskum veiðivötnum.  Forsvarsmenn laxeldismanna lögðust gegn slíku ákvæði með þeim rökstuðningi að iðgjöld yrðu það há að fyrirtækin myndu ekki rísa undir þeim kostnaði. Alkunna er að iðgjöld endurspegla jafnan þá áhættu sem tryggingar taka til.   Ákvæðið náði  ekki fram að ganga og því engar tryggingar fyrir hendi svo veiðiréttareigendur fái tjón bætt af fyrirgreindum sökum.   

 

Miklir hagrænir hagsmunir eru fólgnir í nýtingu stangveiðihlunninda um land allt.  Það er því ljóst að við mat á hagrænum þáttum verður ekki einvörðungu litið til nærumhverfis starfseminnar heldur verður einnig að líta til  mögulegra neikvæðra heildaráhrifa á landsvísu.

 

Velferð eldisdýra

 Landssamband veiðifélaga telur að fjalla verði í matsskýrslu um ástæður þess að mikil og óútskýrð afföll virðast hafa átt sér stað í laxeldi framkvæmdaraðila undanfarin ár.  Vísbendingar um þessi afföll má sjá ef borinn er saman fjöldi útsettra seiða frá árinu 2011- 2013  við  magn sjókvíaeldiafurða undanfarin tvö ár.  Í árskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma árið 2014 er greint frá neyðarslátrun úr kví í Patreksfirði vegna ástands laxa í eldiskvínni.  Ekki er í skýrslunni gefin viðhlítandi skýring á ástæðum þess ástands sem þar skapaðist og því nauðsynlegt að framkvæmdaraðili miðli þeim upplýsingum í matsskýrslu.  Margvísleg dæmi eru um eldislax hafi drepist í stórum stíl í kvíum við Ísland vegna kulda sjávar sbr. m.a. kunn atvik í Hvalfirði og Grundarfirði. Undanfarið hefur borið á mikilli bjartsýni fiskeldismanna um að tímabundin hlýnun sjávar undanfarin ár verði viðvarandi.  Reynsla síðustu tveggja ára gefur varla tilefni til að þær bjartsýnisspár gangi eftir.  Landssambandið gerir kröfu um að framkvæmdaraðilar geri í matsskýrslu grein fyrir þeim áföllum sem orðið hafa í eldi fyrirtækjanna undanfarin ár og rekja má til  umhverfisskilyrða á svæðinu.

 

Lagaumhverfi

 Af gildandi lögum til verndar laxastofnum á Íslandi verður ekki ráðið að heimila megi starfsemi  sem að líkum mun leiða til útrýmingar staðbundinna stofna í ferskvatnsám á svæðinu.  Gildir þá einu þótt viðkomandi ár verði ekki taldar með verðmætari laxveiðiám á Íslandi.  Eigi að síður eru þar náttúruverðmæti sem skylt er að vernda og verja að lögum.  Í þessu sambandi vísast til þess að í lögum 61/2006 er að finna ófrávíkjanleg ákvæði til verndar laxastofnum.  Lögin taka mið af skuldbindingum á grundvelli alþjóðasáttmála sem Íslandi hefur fullgilt og er aðili að og finna má í greinargerð með lögunum.  Þá verður einnig að líta til markmiðsákvæðis laga nr. 71/2008 sem kveður á um að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna.  Ljóst má vera að 20 þúsund tonna sjókvíaeldi í Arnarfirði mun hafa mjög neikvæð áhrif á staðbundna villta laxastofna og við blasir hættan  á útrýmingu  þeirra.  Einnig vísast til meginreglu sem finna má í  ll. kafla laga nr. 60/2013 um meginsjónarmið sem hafa skal til hliðsjónar við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana og byggja skulu á 8- 11 gr. hinna sömu laga.  Landssambandið telur augljóst að álit Skipulagsstofnunar og meðferð umhverfismats hverju sinni fellur undir ákvæði 7. gr. laga um náttúrvernd sem kveður á um meginsjónarmið við ákvarðanatöku og skal því allt ferlið að taka mið af fyrirmælum laganna um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku,  varúðarnálgun og mat á heildarálagi . 

 

 

Virðingarfyllst,

Jón Helgi Björnsson,

Formaður LV

 

 Viðkomandi bréf: Pdf-skjal - Word-skjal