Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. nóvember 2015

Fjallað verður um fiskstofna í Veiðivötnum og útbreiðslu laxfiska á Vestfjörðum á ráðstefnu Líffræðifélagsins nk. laugardag

Á ráðstefnunni verða flutt sex yfirlitserindi, þar af fjögur af erlendum sérfræðingum. Hægt er að kynna sér dagskrá og nánari upplýsingar HÉR. Kjarni ráðstefnunnar eru hinar fjölbreyttu rannsóknir á líffræði sem stundaðar eru hérlendis. Þótt sumar rannsóknirnar fjalli um íslensk viðfangsefni hafa nær allar víðari fræðilega skírskotun. Sem dæmi má taka málstofu um áhrif sauðfjárbeitar sem verður á föstudaginn, og hringborðsumræður í kjölfarið (sjá dagskrá). Annað dæmi er sérstök málstofa um vistkerfi jarðhitasvæða, sem tengist m.a. rannsóknum á hnattrænni hlýnun.

 

Líffræðifélagið mun veita tvær viðurkenningar fyrir rannsóknir á sviði líffræði.  Í ár mun Guðmundur Eggertsson erfðafræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands fá viðurkenningu fyrir farsælan feril og Sigrún Lange sameindalíffræðingur við University College London fær viðurkenningu fyrir góðan árangur við upphaf ferils.

Að ráðstefnunni stendur Líffræðifélag Íslands í samstarfi við Líffræðistofu HÍ, Verkfræði og náttúruvísindasvið HÍ, Lífvísindasetur HÍ, Hafrannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Hólum, Tilraunastöð HÍ í Meinafræði að Keldum, Veiðimálastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtök Náttúrustofa, Háskólinn á Akureyri og Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar