Veiðitölur

Almennt  um  sjóbleikju.

 

Sjóbleikja er frábrugðin staðbundinni bleikju að því leyti að hún gengur til sjávar, þar sem hún dvelur hluta lífsferilsins síns.

 


Sjóbleikja gengur í sjó snemma vors eða fyrri hluta sumars, dvelur þar yfir sumartímann en gengur í ferskvatn þegar líða fer á sumarið, eða að hausti. Stærri bleikjan gengur fyrst til sjávar að vori, en seiði sem eru að fara til sjávar í fyrsta skipti ganga seinna.

Rannsóknir hafa sýnt að bleikjan heldur sig einkum nærri ströndinni meðan hún dvelur í sjó. Bleikjan gengur árlega aftur í ferskvatn og er göngutíminn frá miðjum júlí fram í september. Fyrst gengur í árnar bleikjan sem ætlar að hrygna á komandi hausti en ókynþroska bleikjan gengur síðar. Stundum þarf sjóbleikjan að ganga langt upp ferskvatn til hrygningar.   Þar má til dæmis nefna sjóbleikjustofninn í Hvítá í Borgarfirði.  Þó svo að mikið af þeim stofni virðist hafa vetursetu neðan til í hliðarám Hvítár er talið, að svo til öll hrygning fari fram ofarlega í Hvítá sjálfri og hliðarkvíslum, skammt neðan Hraunfossa.

 

 

Án efa eru Norður- og Norðausturland besta sjóbleikjusvæðið.  Þar rekur hvert veiðivatnið annað, allt frá Hrútafjarðará í vestri til Hofsár í Vopnafirði að austan.  Allgóðar bleikjuár eru líka víða á Austfjörðunum, sem og á Vestfjörðum suður til Breiðafjarðar.