Veiðitölur

                            Almennt  um  sjóbirting.

 

Urriði elur ýmist allan sinn aldur í ferskvatni eða gengur til sjávar eftir að hafa dvalið sem seiði í ánni í nokkur ár (sjóbirtingur).


Urriðinn verður, eins og laxinn, að hrygna í straumvatni. Seiði sjóbirtingsins ganga til sjávar að vori þá tveggja til fjögurra ára, en snúa svo aftur í ána síðsumars og að hausti og dvelja þar yfir veturinn. Sjóbirtingurinn hefur að baki 2-3 sjóferðir þegar hann nær kynþroska og hrygnir.

Sjóbirtingur getur farið oft til sjávar eftir að hann hefur náð kynþroska og hrygnir þá alla jafna á hverju ári. Stórir sjóbirtingar eiga gjarnan margar sjávarferðir að baki.

 

 

Helstu sjóbirtingssvæði landsins eru upp af suðurströndinni þótt hann sé einnig algengur um allt Vesturland og finnist víðar.  Frægustu veiðiárnar eru flestar í Vestur Skaftafellssýslu og má þar nefna Tungufljót, Hörgsá, Eldvatn, Vatnamótin og Grenlæk að ótöldum ýmsum öðrum í svipuðum gæðaflokki.  Á þessu svæði veiðast árlega margir fiskar yfir tíu pund að þyngd, og sagnir eru til um mikið stærri fiska.

 

Eitt af því sem gerir sjóbirtingsveiðarnar aðlaðandi, að dómi margra veiðimanna, er það að besti veiðitíminn er að vori og hausti.  Þannig fellur hann utan helsta laxveiðitímans.  Vorveiðin er þó illa séð af ýmsum, þar sem fiskurinn er þá á leið til sjávar, og þeir sem hrygndu að hausti vart ætir fyrir megurð.  Telja þeir nær að hleypa honum lifandi til sjávar og veiða hann heldur í bakaleiðinni, ferskan og feitan.  Ágætis millileið gæti verið að leyfa vorveiði með þeim skilyrðum að einungis sé veitt á flugu, og öllum fiski sleppt lifandi aftur.