Veiðitölur

Lax er hér á landi einkum að finna í ám á suður, suðvestur, norður og norðausturlandi, en minna er um lax á Vestfjörðum og á Austurlandi.

Laxinn hrygnir að hausti (október-nóvember) í straumvatni. Mikil afföll verða á laxinum að lokinni hrygningu, en þeir sem þrauka af veturinn í ánum ganga til sjávar vorið eftir og nefnast þá niðurgöngulaxar eða hoplaxar.

Hrognin klekjast í ánum vorið eftir hrygningu og fyrst í stað eru seiðin með forðanæringu í poka á kviðnum og kallast þá kviðpokaseiði. Seiðin alast upp í ánum í nokkur ár (algengt 3-4 ár í íslenskum ám) áður en þau verða sjóþroska og ganga til sjávar. Seiðin taka þá bæði lífeðlisfræðilegum og útlitslegum breytingum og kallast gönguseiði. Í sjónum dvelur laxinn hér við land í eitt til tvö ár og vegna góðra vaxtar- og fæðuskilyrði þar er algengt að lax hundraðfaldi þyngd sína á einu ári.

 

Þegar laxinn nær kynþroska, oft eftir eitt ár í sjó, en stundum tvö eða fleiri, leitar hann aftur til uppeldisstöðva sinna.  Algengast virðist að hann nálgist ströndina nálægt sinni heimaá og syndi þaðan meðfram landi, kanni hvern þann árós, sem á leið hans verður þar til hann þekkir vatnið í heimaánni.  Ekki er enn að fullu þekkt hvernig ratvísi laxins er háttað, en þó vitað að lyktar- og bragðskyn ræður þar miklu.

 

Þegar laxinn er genginn í ferskt vatn hættir hann að taka til sín fæðu.  Hann lifir því á eigin orkuforða allt sumarið, notar hann til að þroska hrogn og svil, sem og við hrygninguna sjálfa.  Ekki er því nein furða  þó hann leggi af á þessum tíma.  Þessvegna er hann illa undir veturinn búinn og afföll mikil eftir hrygninguna.  En þeir, sem af lifa veturinn búast aftur sjóbúningi þegar líður að vori og halda til sjávar á ný (hoplaxar).  Við þessa breytingu

fær fiskurinn matarlystina aftur, og oft taka hoplaxar agn af mikilli áfergju á leið sinni til sjávar, ef í boði er.

 

Ýmsir hafa spurt þeirrar spurningar hvers vegna lax taki yfirleitt agn í ánum, þar sem hann sé þar ekki í fæðuleit.   Uppi eru margar og mismunandi kenningar um þetta atriði, og mælum við með því að sem flestir veiðimenn myndi sér sitt eigin álit á því.