Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum

6. ágúst 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 5. ágúst síðastliðinn. 

 

Eystri-Rangá trónir áfram á toppnum og nálgast 4000 laxa markið og gekk veiðin vel síðustu veiðiviku. Samtals hafa veiðst 3981 laxar og skilaði síðasta vika 673 löxum. Þetta er langmesta veiðin sem hefur verið skráð á þessum árstíma í Eystri-Rangá allt frá árinu 2006. 

 

Sem dæmi má nefna að mesta veiði sem hefur verið skráð var árið 2007 en þá var lokatalan alls 7473 laxar. Ef veiðin nú er borin saman við svipaðan tíma árið 2007 þá kemur í ljós að 8. ágúst 2007 höfðu veiðst 2090 laxar og fyrir vikið er veiðin þetta árið, miðað við svipaðan tíma, um helmingi meiri. Áhugavert verður að fylgjast með þróun mála.

 

Af öðrum ám í efstu tíu sætum á listanum er það að frétta að Ytri-Rangá, Norðurá og Miðfjarðará eru með svipaða vikuveiði og veiðivikuna á undan. Vikuveiðin í Selá í Vopnafirði var aðeins minni en vikuna á undan en Hofsá í Vopnafirði bætti við sig. Önnur vatnakerfi voru með lægri veiðitölu þessa veiðivikuna.

 

Athygli er vakin á að ekki hafa borist veiðitölur úr Affalli í Landeyjum en miðað við hve vel veiði hefur gengið undanfarið þá má búast við að Affallið fari ofar á listann.

 

30. júlí 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 29. júlí síðastliðinn. Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verðar settar inn um leið og þær berast.

 

Veiðin hefur gengið misvel síðastliðna veiðiviku og virðist sem sólríkir bjartir dagar og úrkomuleysi hafi töluverð neikvæð áhrif þar um og má segja að skilyrðum til veiða hafi verið misskipt síðastliðna veiðiviku. Við þetta bætist í nokkrum tilvikum að veitt er á færri stengur sökum forfalla og/eða að ekki hafi tekist að selja stangir.

 

Samkvæmt veðurspá verður ekki betur séð að það sé væta í kortunum og er það vel. Ekki er ólíklegt að veiði muni gleðjast í kjölfarið.

 

Efst á listanum okkar er Eystri-Rangá en þar hefur veiðin gengið mjög vel og er veiðin komin vel yfir 3000 laxa markið. Veiðin nú er komin í samtals 3308 laxa. Veiðivikan skilaði alls 1033 löxum.

 

Ytri-Rangá er í öðru sæti og er komin yfir 1000 laxa markið en þar hafa samtals veiðst 1140 laxar og skilaði veiðivikan 136 löxum.

 

Urriðafoss í Þjórsá er í þriðja sæti og er veiðin komin í samtals 793 laxa og veiðivikan skilaði 136 löxum.

 

Í fjórða sæti er Miðfjarðará sem sækir í sig veðrið, veiðin gengið mjög vel og kominn í samtals 729 laxa og skilaði síðasta veiðivika 189 löxum.

 

Í fimmta sæti er Norðurá en þar er veiðin komin í 645 laxa og skilaði síðasta veiðivika 63 löxum.  

23. júlí 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 22. júlí síðastliðinn. Nú eru að berast veiðitölur fá 47 veiðisvæðum umhverfis landið og víðast hvar hefur veiðin aukist milli veiðivikna. Ekki hafa borist veiðitölur úr öllum vatnakerfum en þær verðar settar inn um leið og þær berast.

 

Eftir veiði síðustu viku er Eystri-Ranga fyrsta vatnakerfið sem fer yfir 2000 laxa markið og 275 löxum betur. Hún er sem fyrr efst á listanum og eykur forskot sitt eftir mjög góða veiðiviku sem gaf 703 laxa. Þetta er langmesta veiði sem hefur verið skráð á þessum tíma í Eystri-Rangá allt frá árinu 2006. Árið 2016, 20 júlí, höfðu veiðst 1633 laxar og er það eina árið sem kemst næst veiðinni nú á þessum árstíma.

 

Ytri-Rangá er komin í annað sætið eftir góða veiðiviku, nálgast hratt 1000 laxa markið, með alls 897 laxa og vikuveiðin var 322 laxar, sem er aukning um 75 laxa samanborið við síðustu veiðiviku.

 

Urriðifoss í Þjórsá færist niður í þriðja sætið en þar hefur veiðst alls 657 laxar og skilaði síðasta veiðivika 24 löxum. 

 

Miðfjarðará er komin í fjórða sætið en þar er veiðin komin í alls 540 laxa eftir góða veiðiviku sem skilaði 203 löxum.

 

Þverá og Kjarará er í fimmta sæti með alls 477 laxa og skilaði síðasta veiðivika 129 löxum sem er 56 löxum meira en í veiðivikunni á undan.

 

 

17. júlí 2020

9. júlí 2020

2. júlí 2020

25. júní 2020