Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum

18. september 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 16. september síðastliðinn. 

 

Samantektin er aðeins seinna á ferðinni sem skýrist af fjarveru þess sem tekur saman þessar veiðitölur og mun það vera vegna laxveiða. Þess má jafnframt geta að sú veiðiferð skilaði ekki tilætluðum árangri og á viðkomandi af þeim sökum ekki hlutdeild í þeim tölum sem hér eru birtar, þótt veiðifélagar státi því miður af öðru og eiga réttmæta hlutdeild í veiðitölum þessa vikuna. Úr þessu verður vonandi bætt en sem fyrr þá "veldur hver sem á heldur" stönginni í þessu tilviki.

 

Það bættust tvær ár í hóp þeirra sem komnar eru yfir 1000 laxa markið. Þær eru Þverá/Kjarará með samtals 1046 laxa og er í sjöunda sæti á listanum okkar og Langá sem komin er með samtals 1013 laxa og komin að auki í hóp efstu 10 efstu og situr nú í áttunda sæti.

 

Lokatölur hafa borist úr tveim ám, það er frá Elliðaám en þar er lokatalan 565 laxar, jafnframt úr Skjálfandifljóti sem lokaði 15. september með samtals 361 lax. Lokatölur fara síðan að berast úr fleiri vatnakerfum eftir því sem á líður veiðitímabilið.

 

Eystri-Rangá er efst á listanum og komin í alls 8016 laxa, veiðin gengur vel og skilaði vikuveiðin samtals 327 löxum sem er sú sama og veiðivikuna á undan. Veiðin er nú orðin sú mesta frá upphafi og 543 löxum betur en mesta veiði var árið 2007 þegar alls veiddust 7473 laxar. 

 

Ytri-Rangá er í öðru sæti og komin í alls 2332 laxa og skilaði vikuveiðin 70 löxum. 

 

Í þriðja sæti er Miðfjarðará sem er efst á lista þeirra vatnakerfa sem byggja veiði ekki alfarið á seiðasleppingum. Veiðin gekk vel og samtals hafa veiðst 1626 laxar og skilaði síðasta veiðivika alls 119 löxum sem er 19 löxum meira en veiðivikan á undan skilaði.

 

Í fjórða sæti er Affall í Landeyjum en þar hefur veiði gengið vel og er komin í alls 1501 og skilaði veiðivikan 79 löxum.

 

 

10. september 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 9. september síðastliðinn. 

 

Þá hafa borist fyrstu lokatölur þetta veiðitímabilið en það eru Straumarnir í Hvítá með samtals 190 laxa og Búðardalsá á Skarðströnd með samtals 140 laxa. Lokatölur fara síðan að berast úr fleiri vatnakerfum eftir því sem á líður veiðitímabilið. En þess má geta að þó fyrstu lokatölur séu komnar þá er enn hægt að komast í laxveiði víða um landið og í nokkrum ám vel fram í október. Ein á bættist í hóp þeirra sem komnar eru yfir 1000 laxa markið en það er Haffjarðará með samtals 1036 laxa.

 

Eystri-Rangá er sem fyrr í fyrsta sæti og er komin í alls 7689 laxa, veiðin gengur vel og skilaði vikuveiðin samtals 327 löxum. Veiðin er nú orðin sú mesta frá upphafi og 216 löxum betur en mesta veiði var árið 2007 þegar alls veiddust 7473 laxar. 

 

Ytri-Rangá er í öðru sæti og gekk veiði vel og komin í alls 2262 laxa og skilaði vikuveiðin 182 löxum. 

 

Í þriðja sæti er Miðfjarðará sem er efst á lista þeirra vatnakerfa sem byggja veiði ekki alfarið á seiðasleppingum. Veiðin gekk vel og samtals hafa veiðst 1507 laxar og skilaði síðasta veiðivika alls 100 löxum.

 

Í fjórða sæti er Affall í Landeyjum en þar hefur veiði gengið mjög vel og er komin í alls 1422 og skilaði veiðivikan 123 löxum.

 

 

3. september 2020

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landssambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 2. september síðastliðinn. 

 

Ekki líður á löngu þar til fyrstu árnar skila inn lokatölum en veiðin síðustu viku víðast hvar ber þess merki að liðið er fram á haust. Þær ár sem opnuðu fyrst eru þær sem munu loka á næstunni. Þó árnar loki flestar í september þá er engu að síður hægt að komast í laxveiði í nokkrum ám í október.

 

En hvað afmarkar veiðitímann og afhverju eru sumar ár með opið allt fram í október? Svarið við því er að finna í lögum um lax- og silungsveiði frá árinu 2006.

 

Laxveiðar eru heimilar á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert, en þó aðeins í 105 daga innan þess tímabils. Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, að lengja veiðitíma í allt að 120 daga og allt til 31. október ár hvert í þeim veiðivötnum þar sem fyrst og fremst er veitt úr stofnum sem viðhaldið er með viðvarandi sleppingu seiða. Þá er Fiskistofu að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar heimilt að lengja um allt að fimmtán daga veiðitímabil skv. 1. málsl. í þeim veiðivötnum þar sem öllum laxi er sleppt.

 

 

27. ágúst 2020

20. ágúst 2020

13. ágúst 2020

6. ágúst 2020

30. júlí 2020