Veiðitölur
Fréttasafn
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum

17. febrúar 2017

Fréttatilkynning. Átta mánuði að viðurkenna götótta kví

Svipting rekstrarleyfis hlýtur að blasa við eftir skýrt lögbrot sem eðlilegt er að rannsaka frekar

 

Landssamband veiðifélaga (LV) telur einhlítt að gríðarlega umfangsmikil slysaslepping úr sjókví á Vestfjörðum, sem átta mánuði tók fyrir viðkomandi fyrirtæki að viðurkenna, leiði til þess að viðkomandi rekstraraðili verði sviptur rekstrarleyfi. Landssamband veiðifélaga fékk fyrst upplýsingar um að verulegt magn af regnbogasilungi væri á sveimi í sjó á Vestfjörðum 13. júní í sumar. Ábendingu um það var komið á framfæri við eftirlitsaðila. Ekkert fyrirtæki kannaðist þá við að hafa misst fisk. Síðan þá hefur regnbogi veiðst í fjölda vatnsfalla á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi. LV hefur margoft haft samband við eftirlitsstofnanir, óskað eftir opinberri rannsókn og kært málið til lögreglu. Átta mánuðum seinna er viðurkennt að það sé gat á kví. LV telur að hátterni þetta sé skýrt lögbrot sem eðlilegt sé að lögregla rannsaki til hlítar og vísað verði til ákæruvaldsins. Landssambandið telur þetta brot svo alvarlegt að það hljóti að leiða til sviftingar rekstrarleyfis.

 

16. febrúar 2017

Telja að umtalsvert magn regnbogasilungs hafi sloppið úr fiskeldi í Dýrafirði

Starfsmenn fiskeldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm í Dýrafirði telja að umtalsvert magn regnbogasilungs hafi sloppið úr eldinu þar sem í dag fannst gat við botn kvíar. 

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þarna kunni að vera komin „meginskýringin á mögulegri slysasleppingu regnbogasilungs sem fjallað var um sl. haust þegar engin skýring fannst á því hvaðan regnbogasilungur væri upprunninn sem veiddist í ám á Vestfjörðum.“
 

15. febrúar 2017

Starfsleyfistillaga fyrir auknu eldi í sjó

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir Fjarðalax ehf. til framleiðslu á allt að 10.700 tonnum á ári af laxi í Patreskfirði og Tálknafirði.
 

Starfsleyfið er til  viðbótar við leyfi fyrir 3.000 tonna framleiðslu fyrirtækisins á laxi í sjókvíum í sömu fjörðum. Þótt starfsleyfið sé auglýst fyrir Fjarðalax þá verður framleiðslan undir hatti Arnarlax en fyrirtækin voru sameinuð á síðasta ári. Arnarlax er einnig með laxeldi í sjókvíum í Arnarfirði.